Körfubolti

Crawford besti sjötti maðurinn í þriðja sinn á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamal Crawford.
Jamal Crawford. Vísir/Getty
Jamal Crawford, bakvörður Los Angeles Clippers, var í dag valinn besti sjötti maður NBA-deildarinnar í körfubolta en forráðamenn NBA eru farnir að gera upp tímabilið og úthluta verðlaunum fyrir bestu frammistöðuna.

Þetta er í þriðja sinn sem Jamal Crawford fær þessi verðlaun en þessi 36 ára gamli leikmaður er elsti maðurinn í sögu NBA til að vera kosinn besti sjötti maðurinn.

Jamal Crawford skoraði 14,2 stig og gaf 2,3 stoðsendingar á tímabilinu en hann var annar í deildinni í vítanýtingu, hitti úr 90,4 prósent víta sinna í þessum 79 leikjum sem hann spilaði. Crawford var einnig sá sem skoraði flest stig í fjórða leikhluta af leikmönnum Clippers.

Jamal Crawford fékk þessi verðlaun einnig tímabilið 2009-10 (leikmaður Atlanta Hawks) og tímabilið 2013-14 (Los Angeles Clippers). Enginn hefur áður náð því að vera besti sjötti maðurinn í þrígang en þeir Detlef Schrempf, Ricky Pierce og Kevin McHale fengu allir þessir verðlaun tvisvar sinnum á sínum ferli.

Jamal Crawford fékk 341 stig og 51 atkvæði í fyrsta sæti frá þeim 130 íþróttafréttamönnum sem fjalla reglulega um deildina og fengu atkvæðarétt í ár.

Andre Iguodala hjá Golden State Warriors varð annar með 288 stig og Enes Kanter hjá Oklahoma City endaði í þriðja sæti með 182 stig.

Aðeins þeir leikmenn sem koma oftar inn af bekknum en þeir byrja inná koma til greina í kosningunni á besta sjötta manni deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×