Körfubolti

Durant jafnaði eitt af slæmu metunum hans Jordan í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Michael Jordan.
Kevin Durant og Michael Jordan. Vísir/Getty
Kevin Durant átti allt annað en góðan leik í nótt þegar Oklahoma City Thunder tapaði á heimavelli á móti Dallas Mavericks í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.  Staðan í einvíginu er nú 1-1 og næstu tveir leikir fara fram í Dallas.

Kevin Durant endaði á því að hitta aðeins úr 7 af 33 skotum sínum í leiknum sem gerir 21 prósent skotnýtingu. Hann tapaði líka sjö boltum í leiknum og öll þessi mistök hans reyndust hans liði dýrkeypt.

Með því að klikka á 26 skotum í leiknum þá jafnaði hann met Michael Jordan frá 1997 yfir flest misheppnuð skot í leik í úrslitakeppninni.

Það var ekki eins og hann hafi verið galopinn allt kvöldið því 22 af þessum 26 misheppnuðu skotum voru með varnarmann í sér, 18 af þessum misheppnuðu skotum voru fyrir utan teig og átta þeirra klikkaði hann á í lokaleikhlutanum.

Skotnýting Durant var 29 prósent í fyrri hálfleik (4 af 14) en hún datt niður í 16 prósent í þeim síðari (3 af 19). Hann klikkaði á þremur skotum á síðustu 24 sekúndunum og lokaskot hans var varið þegar þrjár sekúndur voru eftir.

Kevin Durant skoraði 21 stig í leiknum í nótt sem Thunder tapaði með einu stigi. Hann var sigahæsti leikmaður liðsins þrátt fyrir að klikka á öllum þessum skotum.

Michael Jordan klikkaði líka á 26 skotum í leik á móti Miami Heat 26. maí 1997 en var þó með aðeins betri skotnýtingu. Jordan hitti úr 9 af 35 skotum sínum sem gerir 26 prósent nýtingu. Hann klikkaði á öllum átta þriggja stiga skotum sínum.

Jordan náði samt að skora 29 stig í umræddum leik en Chicago tapaði þá með 7 stigum á útivelli.

Kevin Durant setti með þessu einnig persónulegt met yfir flest misheppnuð skot í leik hvort sem er í úrslitakeppni eða deildarkeppni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×