Fótbolti

Forseti La Liga: Megum ekki leyfa ensku úrvalsdeildinni að verða NBA fótboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea City á móti Manchester United.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea City á móti Manchester United. Vísir/Getty
Javier Tebas, forseti spænsku fótboltadeildarinnar La Liga, hefur áhyggjur af stöðu sinnar deildar gagnvart ensku úrvalsdeildinni.

Spænsku liðin hafa verið að standa sig mun betur í Evrópukeppnunum í ár og eiga helming liða í bæði undanúrslitum Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar en Tebas hefur sérstakar áhyggjur af peningamálunum.

Tímabilið 2013-14 bjó enska úrvalsdeildin til 3,26 milljarða punda á móti „aðeins" 1,51 milljörðum punda hjá La Liga. Við erum að tala um meira en þrjú hundruð milljarða mun í íslenskum krónum.

„Við vonumst til þess að geta stækkað svo að enska úrvalsdeildin verði ekki stærsta keppni í heimi og að við getum keppt við hana fjárhagslega," sagði Javier Tebas í viðtali við BBC.

„Við viljum ekki að enska úrvalsdeildin sé skrefi á undan hinum. Ef okkur mistekst að ná þessu þá gæti enska úrvalsdeildin orðið NBA fótboltans. Það væri hvorki gott fyrir okkur né fótboltann í heild sinni," sagði Javier Tebas.

„Stefnan er að láta meira til sín taka á bæði auglýsinga- og sjónvarpsmarkaðnum til að ná í meiri pening fyrir spænsku deildina," segir Javier Tebas.

„Kreppan þvingaði spænsku félögin til að nýta peninga sína betur við kaup á leikmönnum. Þegar þú þénar minna þá þarftu að finna ódýrari leikmenn. Spænski fótboltinn hefur gert vel í þeim efnum," sagði Tebas.

„Kreppan kenndi spænskum félögum að leggja meira á sig við að finna góða leikmenn fyrir minni pening. Það hefur verið mun auðveldara fyrir ensku úrvalsdeildina að finna öfluga leikmenn," sagði Tebas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×