Ólöf Erla Einarsdóttir er grafískur hönnuður sem vann áður á RÚV og hefur séð um útlit fyrir talsverðan fjölda Eurovision-atriða, en hún hefur m.a. hannað grafík og kynningarefni fyrir Vini Sjonna, Jóhönnu Guðrúnu og atriðið hennar Gretu Salóme árið 2012. Í ár er hún sjálfstætt starfandi og orðin hluti af vinningsteyminu hennar Gretu og fer með henni út til Stokkhólms næstkomandi mánudag. Ólöf vann grafíkina fyrir atriðið hennar ásamt Jonathan Duffy og hún hefur sömuleiðis hannað allt kynningarefnið fyrir Grétu.
„Þetta á ekki bara að snúast um lagið, þetta er boðskapur og þetta er listaverk. Við tókum upp öll atriðin, þessa skugga, breyttum þeim í tölvuforriti og klipptum þá saman við lagið og það varð að þessari grafík sem var með atriðinu í Söngvakeppninni,“ segir Ólöf og á þar við skuggana sem voru í bakgrunni á sviðinu í vinningsatriði Gretu Salóme, Hear them calling.

„Við stefnum á að taka atriðið lengra en halda samt í upphaflegu hugmyndirnar. Þeir úti eru með allt okkar efni og við höfum verið að bæta inn í það.“
„Boðskapurinn er að þessar raddir sem maður er að heyra alls staðar á internetinu, þessar neikvæðu raddir, eigi maður ekki að hlusta á. Þú ert miklu betri en það, þú átt ekki að hlusta á neikvæðu raddirnar. Þú ert þú, það getur enginn sagt þér að þú sért eitthvað annað.“
Það verður spennandi að sjá hvernig atriðið þeirra kemur út á sviðinu í Stokkhólmi, Svíar hafa ekki verið þekktir fyrir að láta sitt eftir liggja þegar kemur að Eurovision og það er alveg víst að þeir brydda upp á nýjungum þetta árið. Hvort það verða heilmyndir dansandi við hliðina á Gretu Salóme er ekki víst en þarna verður boðið upp á sjónarspil.