Finnur Atli Magnússon tryggði Haukum framlengingu gegn KR í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld þegar hann setti niður þriggja stiga skot í þann mund sem venjulegur leiktími rann út.
Þessa ótrúlegu flautukörfu má sjá í spilaranum hér að ofan í magnaðri lýsingu Guðmundar Benediktssonar og Svala Björgvinssonar.
Þar má einnig sjá Finn tjá sig um körfuna þegar hann mætti í settið til strákanna í Domino's Körfuboltakvöldi eftir leikinn.
„Ég hugsaði um að [Michael] Craion myndi koma nær mér, ég hélt hann myndi frekar gefa Emil [Barja] skotið. Craion ætti að vita að ég hef hitt úr svona þristum á móti honum,“ sagði Finnur sem er uppalinn KR-ingur og varð Íslandsmeistari með liðinu í fyrra.
„En hann fór bara og Snorri [Hrafnkelsson] keypti gabbhreyfinguna. Ég varð að henda honum upp. Þetta er ekkert rosalega líklegt prósentulega séð en yfir 0% þannig að einhvern tímann varð hann að fara ofan í,“ bætti Finnur við.
Haukar tryggðu sér svo sigurinn í framlengingu og því verða liðin að mætast í fjórða sinn á fimmtudaginn.

