Erlent

Mikið undir hjá forsetaframbjóðendum í New York-fylki

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hillary Clinton þykir sigursælust í New York-fylki en hún var öldungadeildarþingmaður fyrir fylkið.
Hillary Clinton þykir sigursælust í New York-fylki en hún var öldungadeildarþingmaður fyrir fylkið. Fréttablaðið/EPA
Niðurstöður úr forvalskosningum í New York-fylki sem fram fór í gær gætu skipt sköpum fyrir frambjóðendur, en því er spáð í skoðanakönnunum að Hillary Clinton muni bera sigur úr býtum meðal demókrata en Donald Trump meðal repúblíkana.

Sá demókrati sem sigrar í New York-fylki fær 247 kjörmenn, en repúblíkani 95 kjörmenn. Samtals þarf frambjóðandi demókrata að tryggja sér atkvæði 2.383 kjörmanna til að hljóta tilnefningu, en frambjóðandi repúblikana 1.237.

Gríðarlega mikilvægt er að Clinton og Trump sigri í fylkinu þar sem helstu andstæðingar þeirra, Bernie Sanders og Ted Cruz, hafa verið mjög sigursælir í síðustu fylkjum þar sem kosið var. Sanders hefur til að mynda unnið sjö af síðustu átta forkosningum.

Fyrir forvalið í gær munaði einungis um atkvæði tvö hundruð kjörmanna milli Clinton og Sanders, Clinton er með 1.289 kjörmenn og 469 ofurkjörmenn, en Sanders með 1.045 kjörmenn og 31 ofurkjörmann. Trump var aftur á móti með 744 kjörmenn og helsti keppinautur hans Ted Cruz með 559 kjörmenn.

Næstu forkosningar fara fram þann 26. apríl í fimm ríkjum á austurströnd Bandaríkjanna. Síðustu forkosningar flokkanna verða haldnar þann 14. júní.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 20. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×