Körfubolti

Portland komið áfram | Tveir oddaleikir í Austurdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Damian Lillard og CJ McCollum fallast í faðma eftir sigurinn á Clippers í nótt.
Damian Lillard og CJ McCollum fallast í faðma eftir sigurinn á Clippers í nótt. vísir/getty
Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Portland Trail Blazers sló vængbrotið lið Los Angeles Clippers út með þriggja stiga sigri, 106-103, í sjötta leik liðanna í Portland.

Portland tapaði fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu en kom til baka, vann fjóra leiki í röð og tryggði sér sæti í undanúrslitum þar sem liðið mætir meisturum Golden State Warriors.

Damian Lillard var stigahæstur í liði Portland með 28 stig og framfarakóngur ársins, CJ McCollum, kom næstur með 20 stig.

Jamal Crawford skoraði 32 stig fyrir Clippers og DeAndre Jordan skoraði 15 stig og tók 20 fráköst. Liðið lék án Chris Paul og Blake Griffin sem meiddust í leik fjögur.

Indiana Pacers tryggði sér oddaleik gegn Toronto með sigri, 101-83, í sjötta leik liðanna í Austurdeildinni.

Toronto gat tryggt sér farseðilinn í undanúrslitin með sigri í Indiana í nótt en heimamenn voru á öðru máli. Paul George fór fyrir sínum mönnum með 21 stigi og 11 fráköstum en allir byrjunarliðsmenn Indiana skoruðu 12 stig eða meira í leiknum.

Cory Joseph og DeMarre Carroll skoruðu 15 stig hvor fyrir Toronto sem á oddaleikinn á heimavelli sínum.

Það verður sömuleiðis oddaleikur í einvígi Miami Heat og Charlotte Hornets en Miami vann sjötta leik liðanna í nótt, 97-90.

Dwayne Wade sýndi gamla takta í liði Miami, skoraði 23 stig og hitti úr sínu fyrsta þriggja stiga skoti síðan í desember. Loul Deng átti einnig góðan leik, skoraði 21 stig og hitti úr níu af 14 skotum sínum utan af velli.

Kemba Walker var langstigahæstur í liði Charlotte með 37 stig. Al Jefferson kom næstur með 18 stig.

Úrslitin í nótt:

Portland 106-103 LA Clippers

Indiana 101-83 Toronto

Charlotte 90-97 Miami

Portland og Clippers í draugsýn Dwayne Wade og Kemba Walker háðu einvígi Flottustu tilþrif næturinnar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×