FH og KR hafa unnið tíu af síðustu þrettán Íslandsmeistaratitlum í karlafótboltanum og leikir liðanna hafa ráðið miklu um þróun mála það sumarið.
Fylgni úrslita þeirra leikja og árangur liðanna það sumarið er þó við fyrri leikinn en ekki þann síðari. Mark Pálma Rafns Pálmasonar réð úrslitum á KR-vellinum í fyrrakvöld og ef marka má þróun mála frá uppkomu Hafnfirðinga fyrir þrettán árum þá boðar þessi sigur afar gott fyrir KR-liðið.
Á undanförnum þrettán tímabilum hefur sigurvegari fyrri leiks KR og FH endað tólf sinnum ofar í töflunni um haustið og níu sinnum hefur sigurvegari fyrri leiks FH og KR farið alla leið og unnið sjálfan Íslandsmeistaratitilinn nokkrum mánuðum síðar.
Knattspyrnan var oft í aukahlutverki á vetrarlegum fótboltavelli þeirra KR-inga á fimmtudagskvöldið en það mátti vel greina það á baráttunni að mikið var undir í þessum fyrsta risaleik tímabilsins.
Undantekningin frá reglunni er sumarið 2012 þegar KR vann 2-0 sigur í fyrri leik liðanna og reyndar báða innbyrðisleiki liðanna en það voru hins vegar FH-ingar sem fengu fjórtán stigum meira en Vesturbæjarliðið og tryggðu sér titilinn í september.
Það eru enn 19 af 22 umferðum eftir af mótinu og því á vissulega mikið eftir að gerast. KR-ingar stimpluðu sig hins vegar inn í mótið með þessum sigri og þó að sigurinn hafi hjálpað Stjörnumönnum mest eins og staðan er í dag þá segir hefð síðustu ára okkur það að KR-ingar eiga að enda ofar en FH í töflunni.
Hvað boða úrslitin í fyrri leik KR og FH á Íslandsmótinu?
2003 KR vann 2-1 KR Íslandsmeistari FH 2. sæti
2004 FH vann 1-0 FH Íslandsmeistari KR 6. sæti
2005 FH vann 1-0 FH Íslandsmeistari KR 6. sæti
2006 FH vann 3-0 FH Íslandsmeistari KR 2. sæti
2007 FH vann 2-0 FH 2. sæti KR 8. sæti Valur Íslandsmeistari
2008 FH vann 2-0 FH Íslandsmeistari KR 4. sæti
2009 FH vann 2-1 FH Íslandsmeistari KR 2. sæti
2010 FH vann 3-2 FH 2. sæti KR 4. sæti Breiðablik Íslandsmeistari
2011 KR vann 2-0 KR Íslandsmeistari FH 2. sæti
2012 KR vann 2-0 FH Íslandsmeistari KR 2. sæti Undantekning reglunnar
2013 KR vann 4-2 KR Íslandsmeistari FH 2. sæti
2014 FH vann 1-0 FH 2. sæti KR 3. sæti Stjarnan Íslandsmeistari
2015 FH vann 3-1 FH Íslandsmeistari KR 4. sæti
2016 KR vann 1-0 ???
Mikilvægi sigurmarks Pálma Rafns á móti FH meira en bara stigin þrjú
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Hvað eru menn búnir að láta fífla sig út í?“
Íslenski boltinn


Trans konum bannað að spila í kvennaflokki á Bretlandi
Enski boltinn





