Nöfn þeirra sem skipa íslensku dómnefndina í Eurovision
Birgir Olgeirsson skrifar
Petra Mede og Mans Zelmerlow eru kynnar Eurovision í ár.Vísir/Getty
Úrslit söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Globen í Stokkhólmi, Svíþjóð, annað kvöld. Ísland verður fjarri góðu gamni eftir að Greta Salóme komst ekki upp úr undanriðlinum með lagið Hear Them Calling síðastliðið þriðjudagskvöld. Íslendingar munu þó taka þátt í fjörinu á morgun.
Áhorfendur taka þátt í símakosningunni og þá mun fimm manna dómnefnd frá Íslandi einnig hafa sitt að segja.
Hana skipa:
Kristín Björg Þorsteinsdóttir fyrrverandi dagskrárgerðarmaður (formaður dómnefndar)
Magnús Jón Kjartansson tónlistarmaður
Kristjana Stefánsdóttir tónlistarmaður
Vera Hjördís Matsdóttir tónlistarnemi
Björgvin Ívar Baldursson tónlistarmaður
Fyrirkomuleg stigagjafarinnar hefur verið breytt fyrir þessa keppni þannig að hægt verður að fá 1 – 8 stig, 10 stig og 12 stig frá dómnefnd hverrar þjóðar og sömuleiðis 1 – 8 stig, 10 stig og 12 stig úr símakosningu hverrar þjóðar. Mun þetta því tvöfalda stigafjöldann í keppninni í ár.Áhorfendur hafa kost á að greiða atkvæði í keppninni í gegnum símhringingu, með SMS-i eða í gegnum opinbert app Eurovision-keppninnar.
Eftir að niðurstaða dómnefndar hverrar þjóðar hefur verið tilkynnt, þar sem tíu þjóðir geta fengið 1 – 8 stig, 10 stig eða 12 stig, þá verður tilkynnt um niðurstöðu símakosningar þar sem tíu þjóðir fá annað hvort 1 – 8 stig, 10 stig eða 12 stig.