Körfubolti

Sjáðu ræðuna hans Stephen Curry í gær | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry, leikstjórnandi Golden State Warriors, var í gær valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar annað árið í röð.

Það var ekki nóg með að þessi litli og netti bakvörður tæki þessi verðlaun annað árið í röð heldur varð hann sá fyrsti í sögunni til að fá öll atkvæði í boði.

130 fjölmiðlamenn sem starfa við það að fjalla um NBA-deildina að staðaldri tóku þátt í kjörinu og allir settu Stephen Curry í fyrsta sætið.

Stephen Curry átti líka stórbrotið tímabil, leiddi deildina í stigum (30,1 í leik), þriggja stiga körfum (403), stolnum boltum (2,1) og vítanýtingu (90,8 prósent) auk þess að vera í öðru sæti yfir bestu þriggja stiga nýtingu (45,4 prósent) þrátt fyrir að skora 5,4 þrista að meðaltali í leik.

Stephen Curry bætti stigaskor sitt um 6,3 stig frá því í fyrra þegar hann var líka kosinn bestur en enginn leikmaður sem var valinn bestur hefur náð að bæta sig jafnmikið í stigaskori á næsta tímabili á eftir.

Stephen Curry fékk verðlaunin daginn eftir að hann snéri til baka eftir meiðsli sem kostuðu hann fjóra leiki. Stephen Curry skoraði 40 stig í fyrsta leiknum eftir að hafa komið inn af bekknum og setti nýtt NBA-met með því að skora 17 stig í fimm mínútna framlengingu.

Það er orðið mikil hefð fyrir því að þeir leikmenn sem eru kosnir bestir í NBA haldi eftirminnilegar og dramatískar ræður og hér fyrir neðan má sjá ræðu Stephen Curry frá því í gær.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×