Körfubolti

Mögnuð endurkoma meistaranna fullkomnuð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Klay Thompson lyftir bikarnum í nótt.
Klay Thompson lyftir bikarnum í nótt. Vísir/Getty
Golden State Warriors tryggði sér í nótt sigur í Vesturdeild NBA-deildarinnar með mögnuðum 96-88 sigri á Oklahoma City Thunder.

NBA-meistararnir komust þar með í lokaúrslit úrslitakeppninnar annað árið í röð og tókst það sem afar fá lið hafa afrekað í sögu deildarinnar, að vinna rimmu í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 3-1 undir.

Golden State mætir LeBron James og félögum í Cleveland Cavaliers í úrslitunum, rétt eins og í fyrra en þá vann Golden State sinn fyrsta meistaratitil í 40 ár eftir 4-2 sigur í rimmunni.

Besti leikmaður deildarinnar, Steph Curry, átti frábæran leik í nótt en hann skoraði 36 stig og setti niður sjö þriggja stiga körfur. Alls skoraði hann 32 þriggja stiga körfur í rimmunni allri sem er met í sjö leikja seríu í úrslitakeppninni.

Þegar rúm mínúta var til leiksloka og staðan 90-86, Golden State í vil, braut Serge Ibaka á Curry utan þriggja stiga línunnar. Curry setti niður öll þrjú vítin og innsiglaði svo endanlega sigurinn með þriggja stiga körfu stuttu síðar.

Klay Thompson var nokkuð lengi að hitna í leiknum í nótt eftir magnaða frammistöðu í síðasta leik, er hann skoraði 41 stig í ótrúlegum sigri Golden State í leik sex í rimmunni. Hann klikkaði á sjö fyrstu skotum sínum í leiknum í nótt en komst svo í gang og skoraði alls 21 stig í leiknum, þar af átján utan þriggja stiga línunnar.

Alls tíu liðum hefur nú tekist að vinna rimmu í úrslitakeppni NBA-deildarinnar eftir að hafa lent 3-1 undir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×