Innlent

Hittu goðin í Kringlunni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Núna eru aðeins tíu dagar í fyrsta leik íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á úrslitakeppni EM í Frakklandi gegn Portúgal í St. Etienne.  

Í dag var haldin sérstök EM hátíð í Kringlunni en aðdáendum landsliðsins gafst kostur á að hitta þá áður en þeir halda á úrslit EM í Frakklandi.

Þegar fréttastofan leit við laust eftir fjögur síðdegis voru Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson að gera sig klára til að árita fótboltamyndir fyrir unga aðdáendur liðsins.

Gylfa Þór minnir að hann sjálfur hafi safnað fótboltamyndum þegar hann var lítill.

„Það voru aðallega myndir með leikmönnum hjá Manchester. Þetta er auðvitað frábært fyrir krakkana,“ segir Gylfi.

Haldinn var sérstakur bíttimarkaður með EM fótboltaspjöld og þá gáfu íslensku landsliðsmennirnir myndir og árituðu fyrir spjöld og myndir fyrir aðdáendur.  

„Við klárum leikinn á móti Liechtenstein á mánudag, svo tökum við held ég létta æfingu á þriðjudagsmorgun og svo fljúgum við bara út eftir það,“ segir Gylfi.

Það var mikið fjölmenni mætt í Kringluna og um fjögurleytið náði röðin alla leið að rúllustiganum við Stjörnutorg. Eflaust stór stund fyrir marga unga aðdáendur sem voru kannski að berja fyrirmyndir sínar augum í návígi í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×