Fótbolti

Ragnar: Óþarfi að hafa áhyggjur af okkur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Sigurðsson var léttur í Laugardalnum í dag.
Ragnar Sigurðsson var léttur í Laugardalnum í dag. vísir/hanna
Ellefu dagar eru þar til strákarnir okkar í karlalandsliðinu í fótbolta ganga út á Stade Geoffroy-Guichard-völlin í St. Étienne og mæta Cristiano Ronaldo og félögum í portúgalska landsliðinu í fyrsta leik á EM.

Undirbúningur liðsins hefur ekki gengið vel ef mið er tekið af úrslitum í vináttuleikjum. Strákarnir hafa aðeins unnið tvo leiki af síðustu átta og töpuðu nú síðasta fyrir Noregi í vináttuleik í Osló þar sem liðið spilaði alls ekki vel.

„Þetta var lélegt. Það er klárt mál. Við getum alveg viðurkennt það, að við erum búnir að spila nokkra lélega æfingaleiki á undanförnu en á sama tíma er engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu,“ segir Ragnar í viðtali við íþróttadeild 365.

Íslenska liðið, sem spilaði svo öfluga vörn í undankeppninni, hefur verið að fá á sig of mikið af mörkum í undanförnum leikjum. Noregur var aðeins búið að skora 0.8 mörk að meðtali í í leik í 28 leikjum áður en liðið setti þrjú á ísland.

„Tvö af þessum mörkum koma úr föstum leikatriðum. Það getur alltaf gerst. Við erum að hrófla við liðinu og það voru þrír í varnarlínunni sem eru ekki fastamenn. Því tekur tíma að spila sig saman,“ segir Ragnar.

Strákarnir æfa í sólinni í Laugardalnum í dag.vísir/hanna
Æfingaleikir ekki eins

Ragnar segir að hvernig strákarnir komu til leiks hafi haft sitt að segja gegn Noregi. Menn hafi verið að spara sig enda styttist í stóru stundina. Það er samt ekkert svo sniðugt að hans mati.

„Maður er búinn að vera hugsa svo mikið um þetta að sjálfkrafa byrjar maður aðeins að passa sig. Ég var sjálfur að gera það í síðustu leikjunum í rússnesku deildinni. Það er ekkert jákvætt við það því ef maður fer að passa sig of mikið þá fer maður eins og aumingi í návígin og þá eru meiri líkur á að maður meiðist. En það er líka bara erfitt að hafa stjórn á þessu,“ segir Ragnar.

Íslenska liðið hefur ekki brugðist í stórum leikjum sem skipta máli í langan tíma þannig getum við ekki treyst á að það verði áfram þannig frá og með 14. júní?

„Að sjálfsögðu. Við vitum það og þið vitið öll hvað við getum. Ég segi það aftur að það er ekki það sama að spila æfingaleik og alvöru leik. Það er ekkert hægt að bera þetta saman og því er algjör óþarfi að vera með áhyggjur.“

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×