„Það verður mjög gott veður um helgina og fínt veður í næstu viku,“ segir Theodór Freyr Hervarðsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands aðspurður um hversu lengi blíðviðrið sem leika mun við landsmenn í dag.
Theodór bendir á að hiti hafi mest farið upp í 24 gráður í gær á Fljótsdalshéraði og í dag geti hiti víða farið yfir 20 stig, þá aðallega í innsveitum á Austurlandi, Suðurlandi og Norðurlandi.
Einhverjir íbúar höfuðborgarsvæðisins tóku eflaust eftir þykkri þoku við ströndina í morgun og segir Theodór að það sé einmitt hætta á þoku um helgina. Þokan kemur til vegna þess að mjög hlýtt loft kemur yfir kaldan sjó þannig að sjórinn kælir loftið.
Veðurhorfur á landinu eru annars þessar næstu daga:
Í dag, föstudag:
Hægviðri eða hafgola og yfirleitt léttskýjað inn til landsins, en allvíða skýjað eða þokuloft við sjóinn. Hiti frá 8 stigum í þokulofti við strendur upp í 22 stig í innsveitum.
Á sunnudag:
Suðaustan og austan 5-10 metrar á sekúndu með suður- og norðurströndinni, annars hæg breytileg átt. Bjartviðri að mestu á Austurlandi, annars skýjað með köflum og sums staðar lítilsháttar væta. Hiti frá 7 stigum við norðurströndina upp í 20 stig austanlands.
Á mánudag:
Norðaustan og austan 3-8 metrar á sekúndu, skýjað með köflum og dálítil væta norðanlands. Hiti 7 til 18 stig, hlýjast suðvestanlands.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Austlæg átt ríkjandi, bjartviðri á köflum á vesturhelmingi landsins, annars skýjað að mestu en úrkomulítið. Áfram tiltölulega hlýtt í veðri.
Hiti gæti farið yfir 20 stig í innsveitum víða um land
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
