Körfubolti

LeBron James: Ég gerði mistök

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og LeBron James.
Stephen Curry og LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James, leikmaður Cleveland Cavaliers, hefur breytt um taktík og segir nú að Steph Curry hafi eftir allt saman átt skilið að vera kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar.

Golden State Warriors, lið Curry, og Cleveland Cavaliers, lið James, mætast í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar og er fyrsti leikurinn á heimavelli Golden State í kvöld. Allt einvígið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

James talaði um það opinberlega, skömmu eftir að Curry fékk fullt hús í kosningunni um mikilvægasta leikmann deildarinnar, að það væri túlkunaratriði hvort að Curry væri sá besti.

Curry fékk fullt hús í kosningunni en LeBron James varð í þriðja sæti á eftir þeim Curry og Kawhi Leonard hjá San Antonio Spurs. Þetta var annað árið sem James varð þriðji í kjörinu og hann varð síðan í öðru sæti á eftir Kevin Durant tímabilið 2013-14.

Ummæli James vöktu talsverða athygli en hann hefur sjálfur verið fjórum sinnum kosinn besti leikmaður NBA síðast fyrir 2012-13 tímabilið þegar hann fékk verðlaunin annað árið í röð.

„Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ég gerði mistök með því að svara spurningunni. Ég vil samt taka það fram að ég orðaði þetta ekki eins og þetta var sett upp gagnvart Steph," sagði LeBron James.

„Steph er án nokkurs vafa mikilvægasti leikmaðurinn í okkar deild. Hann er frábær körfuboltamaður og það er magnað sem hann gerir fyrir okkar deild," sagði James.

Steph Curry var með 30,1 stig, 5,4 fráköst og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu en meðaltöl LeBron James voru 25,3 stig, 6,5 fráköst og 6,8 stoðsendingar. LeBron James var með hætti skotnýtingu en mun lægri vítanýtingu og þriggja stiga skotnýtingu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×