Fótbolti

Ísland 13. besta liðið á EM samkvæmt the Guardian

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir stilla sér upp fyrir leikinn gegn Ungverjalandi.
Íslensku strákarnir stilla sér upp fyrir leikinn gegn Ungverjalandi. vísir/epa
Íslenska landsliðið stekkur upp um þrjú sæti á styrkleikalista the Guardian yfir liðin 24 á EM 2016 eftir aðra umferð riðlakeppninnar sem lauk í gær.

Listann má sjá með því að smella hér.

Guardian setti Ísland í 16. sæti eftir jafnteflið við Portúgal í fyrstu umferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn. Og eftir 1-1 jafnteflið við Ungverja í gær eru íslensku strákarnir komnir í 13. sætið á þessum styrkleikalista. Ungverjaland er í 9. sæti, einu sæti á undan Portúgal.

Sjá einnig: Rýnt í möguleika Íslands: Fínir möguleikar á sæti í 16-liða úrslitum

Í umsögninni um íslenska liðið segir að úrslitin í gær hafi verið svekkjandi sérstaklega í ljósi þess hvernig og hvenær Ungverjar jöfnuðu metin.

Þjálfarar liðsins, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, geti hins vegar huggað sig við að Ísland fari áfram í 16-liða úrslit með sigri, og hugsanlega jafntefli, gegn Austurríki á miðvikudaginn.

Andrés Iniesta hefur verið magnaður á EM.vísir/getty
Guardian setur Spánverja í efsta sætið á styrkleikalistanum en Evrópumeistararnir unnu mjög svo sannfærandi sigur á Tyrkjum á föstudaginn.

Ítalir detta úr 1. sætinu og niður í það annað og Frakkar fara úr öðru sæti í niður í það þriðja.

Norður-Írar eru hástökkvarar annarrar umferðarinnar en þeir fara upp um heil 10 sæti, úr því neðsta í það fjórtánda. N-Írland tapaði 1-0 fyrir Póllandi í fyrsta leik sínum en svaraði fyrir sig með 2-0 sigri á Úkraínu sem er í neðsta sæti í styrkleikaröðun Guardian, enda eina liðið sem er úr leik.

Sjá einnig: UEFA kærir Ungverja, Belga og Portúgala | Myndir

Slóvakar fara upp um sjö sæti eftir sigurinn góða á Rússum og Belgar eru komnir upp í 6. sætið í kjölfarið á sannfærandi sigri á Írum.

Tyrkir hrapa hins vegar úr 15. sætinu niður í það 23. og næstneðsta en lærisveinar Fatihs Terim hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa á EM og ekki skorað mark.

Austurríkismenn, næstu mótherjar Íslands, falla niður um fjögur sæti frá síðasta lista og eru í 22. sæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×