Fótbolti

Lars: Strákarnir svindla ekki en þurfa samt að vera aðeins kaldari

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck var brattur á æfingu dagsins þrátt fyrir úrslit gærkvöldsins.
Lars Lagerbäck var brattur á æfingu dagsins þrátt fyrir úrslit gærkvöldsins. vísir/vilhelm
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta, var stoltur af varnarleik strákanna okkar í 1-1 jafnteflinu gegn Ungverjalandi í gær en var að sjálfsögðu svekktur með úrslitin þar sem okkar menn komust yfir.

Íslenska liðið varðist nánast frá fyrstu mínútu og sérstaklega í seinni hálfleiknum þegar liðið var með forskotið eftir vítaspyrnumark Gylfa Þórs Sigurðssonar. Liðið bakkaði þá alltof mikið en það er ekki ný saga.

Sjá einnig:Lars: Verð að hrósa Íslendingum fyrir að sýna Eiði Smára þessa virðingu

„Fyrri hálfleikurinn var nokkuð góður. Við hefðum átt að vera meira með boltanum í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik vorum við of varkárir og gerðum mistök. Strákarnir ætla sér ekki að gera þetta en þetta kemur sjálfkrafa. Þegar þeir komast yfir vilja þeir passa upp á forskotið,“ sagði Lars við Vísi á æfingasvæði íslenska liðsins.

Björgin Stefán Pétursson og hinir 8.999 Íslendingarnir á Stade Vélodrome voru svekktir í leikslok.vísir/vilhelm
Skrítnir hlutir

Svíinn var ósáttur við hvernig strákarnir fóru með föst leikatriði í seinni hálfleiknum og sérstaklega undir lokin. Þeir gáfu sér ekki nógu mikinn tíma til að stilla upp en klukkan var auðvitað líka besti vinur strákanna verandi marki yfir.

„Við töluðum líka sérstaklega um föstu leikatriðin. Þegar við vorum 1-0 yfir og lítið eftir fórum við að gera mjög skrítna hluti í föstum leikatriðum eins og að senda boltann þegar enginn var tilbúinn. Við verðum að vera aðeins kaldari í þessum stöðum til að drepa leikinn,“ sagði Lars.

„Ég virði samt leikmennina okkar því það er ekkert rugl eða svindl í gangi. Þeir eru ekkert að dýfa sér heldur spila með góðu viðhorfi og sýna öllum virðingu. Menn verða samt að gefa sér smá tíma eins og þegar við ætlum að taka langt innkast. Þá verðum við að bíða í tíu sekúndur og verða aðeins kaldari,“ sagði Lars Lagerbäck.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×