Fótbolti

Ruddist inn á völlinn og fékk selfie með Ronaldo | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alvöru bolur þarna á ferðinni.
Alvöru bolur þarna á ferðinni. vísir/epa
Það gekk ekkert upp hjá Cristiano Ronaldo þegar Portúgal og Austurríki gerðu markalaust jafntefli á Parc des Princes í París í F-riðli á EM 2016 í gærkvöldi.

Ronaldo reyndi allt hvað hann gat og átti alls 10 skot að marki í leiknum. Real Madrid-maðurinn komst næst því að skora þegar hann skaut í stöng úr vítaspyrnu 12 mínútum fyrir leikslok.

Sjá einnig: Ronaldo átt 20 skot á EM án þess að skora

Portúgölsku stórstjörnunni tókst þó að gleðja einn aðdáanda sem ruddist inn á völlinn eftir að lokaflautið gall til að fá mynd af sér með goðinu.

Ronaldo tók vel í beiðnina, bandaði öryggisvörðum frá og aðdáandinn fékk svokallaða „selfie“.

Hæstráðendur í portúgalska knattspyrnusambandinu kunna þessum dreng þó eflaust litlar þakkir fyrir því Portúgalar hafa verið ákærðir af UEFA vegna þessarar uppákomu.

Ronaldo hefur átt erfitt uppdráttar á EM, bæði innan vallar sem utan en hann var harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín í garð Íslands eftir jafntefli liðanna á þriðjudaginn.

Sjá einnig: Hömlulaus þórðargleði: Íslendingar fögnuðu ákaft þegar Ronaldo klúðraði vítinu

Portúgalar eru með tvö stig eftir tvo leiki í F-riðli, jafnmörg og Íslendingar sem eru fyrir ofan á fleiri mörkum skoruðum. Ungverjar eru í toppsætinu með fjögur stig og Austurríkismenn reka lestina með aðeins eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×