Fótbolti

Birkir: Veit ekki hvort allir hafi verið 100 prósent einbeittir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason spilaði frábærlega í kvöld.
Birkir Bjarnason spilaði frábærlega í kvöld. vísir/vilhelm
Birkir Bjarnason spilaði bæði á kantinum og á miðjunni fyrir Ísland í kvöld þegar liðið gerði grátlegt jafntefli við Ungverjaland, 1-1, í öðrum leik liðanna í F-riðli EM 2016.

Ungverjaland skoraði jöfnunarmarkið á 88. mínútu en var fram að því varla búið að skapa sér alvöru færi. Birkir var grautfúll þegar hann ræddi við blaðamenn eftir leikinn.

„Við vorum með þrjú stig þegar það voru þrjár mínútur þannig það er gríðarlega svekkjandi að fara ekki með þau heim,“ sagði Birkir sem tók ekki undir að íslenska liðið hefði bakkað of mikið síðasta korterið.

„Við erum 1-0 yfir og þrjú stig en klikkum í einu og það er í markinu. Ég veit ekki alveg hvað gerist en ég er ekki viss hvort allir hafi verið 100 prósent einbeittir.“

„Við vorum með þrjú stig þarna. Menn verða að gera sér grein fyrir því og við hefðum orðið efstir í riðlinum. Þetta er því mjög svekkjandi,“ sagði Birkir.

Birkir leysti fyrirliðann Aron Einar Gunnarsson af hólmi á miðri miðjunni þegar hann fór af velli um miðjan seinni hálfleikinn.

„Það var bara fínt. Ég hef spilað þar áður. Mér leið bara vel. Ég spila bara þar sem þjálfararnir vilja að ég spili,“ sagði Birkir um stöðubreytinguna.

Strákarnir okkar þurfa nú úrslit gegn Austurríki í lokaleiknum þar sem jafntefli gæti verið nóg. Það kemur betur í ljós eftir leik Austurríkis og Portúgals í kvöld.

„Við verðum bara að fara í þann leik til að vinna. Við sáum að þeir töpuðu á móti Ungverjalandi en svo sjáum við til hvað gerist í kvöld. Við förum í þann leik til að vinna hann,“ sagði Birkir Bjarnason.


Tengdar fréttir

Ragnar: Mjög þungt andrúmsloft í klefanum

Ragnar Sigurðsson, besti leikmaður Íslands í jafnteflinu gegn Ungverjalandi, var sár og svekktur með niðurstöðuna í leikslok þegar hann ræddi við blaðamenn.

Heimir: Aron Einar fékk högg og stífnaði upp

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, stífnaði upp í leiknum gegn Ungverjum í dag og var það ástæðan fyrir því að Aron fór af velli á 66. mínútu í jafnteflinu í dag.

Aron Einar: Ég verð klár á miðvikudaginn

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, verður klár í slaginn á miðvikudaginn, en hann fór af velli þegar tæpar 30 mínútur voru til leiksloka.

Alfreð kominn í bann

Alfreð Finnbogason tekur út leikbann þegar Ísland mætir Austurríki á Stade de France í F-riðli á EM 2016 á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×