Fótbolti

Íslendingapartý í Marseille: Can´t walk away á repeat og geggjað stuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þessi sungu með Herberti og félögum í sólinni í Marseille.
Þessi sungu með Herberti og félögum í sólinni í Marseille. Vísir/Vilhelm
Fleiri hundruð Íslendingar komu saman síðdegis í Marseille á suðurströnd Frakklands með eitt markmið í huga, að skemmta sér. 3500 króna miðaverð stöðvaði engan gest en bros var á hverju andliti daginn fyrir leikinn mikilvæga gegn Ungverjalandi á Stade-Vélodrome.

Herbert Guðmundsson, Danni Deluxe og Sóli Hólm sáu um að halda uppi stemningunni og mátti heyra slagara eins og Einn dans við mig og Út á gólfið með Hemma heitnum Gunn á milli þess sem Ég er kominn heim var sungið hástöfum. Þá má ekki gleyma Herberti sjálfum Guðmundssyni sem tók slagarana sína, suma oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Íslendingarnir voru með góða skapið að vopni og ekkert vesen heldur aðeins gleði. Einn og einn fór aðeins of geyst í vínið og hafði lognast útaf á sófanum en hlutfall karla í hópnum var afar hátt, yfir níutíu prósent. Þeir sem sofnuðu voru þó í góðri gæslu vina sinna enda ætlar enginn að missa af leiknum á morgun þar sem okkar menn geta svo gott sem tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum með sigri.

Vilhelm Gunnarsson myndaði hressa Íslendinga í Marseille í dag.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á FacebookTwitter og Snapchat (sport365).


Það var sungið og trallað á þessum ágæta bar við ströndina í Marseille.Vísir/Vilhelm
Líklegt er að þessir meistarar hafi tekið nokkur af sínum bestu danssporum í dag.Vísir/Vilhelm
Herbert Guðmundsson fór á kostum í dag.Vísir/Vilhelm
„Áfram Ísland“ munu þessi syngja á Stade-Vélodrome á morgun.Vísir/Vilhelm
Strákarnir í Tólfunni fóru á kostum sem endranær.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×