Fótbolti

Áfall fyrir Ungverja: Einn besti leikmaður liðsins ekki með gegn Íslandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fiola fer meiddur af velli gegn Austurríki.
Fiola fer meiddur af velli gegn Austurríki. vísir/getty
Ungverska landsliðið varð fyrir áfalli í dag þegar ljóst var að Attila Fiola, hægri bakvörður liðsins, getur ekki verið með gegn Íslandi þegar liðin mætast í F-riðli EM 2016 á morgun.

Fiola fór meiddur af velli í 2-0 sigri Ungverja gegn Austurríki í fyrstu umferð riðlakeppninnar en þjálfari liðsins staðfesti á blaðamannafundi í dag að hann yrði ekki með gegn Íslandi.

Fiola er 26 ára gamall og spilar með Puskás Akadémia í heimalandinu. Hann á ekki nema fjórtán landsleiki að baki en hann hefur á síðustu misserum stimplað sig inn sem einn allra besta leikmann ungverska liðsins.

Breiddin í stöðu hægri bakvarðar er heldur ekki mikil hjá Ungverjum. Svo gæti farið að ungstirnið Barnabás Bese byrji leikinn en hann var óvænt valinn í EM-hópinn þrátt fyrir að hafa aldrei spilað landsleik áður.

Líklegra er þó að Gergo Lovrencsics, leikmaður Lech Poznan, verði í byrjunarliðinu. Ungverskir blaðamenn og sparkspekingar óttast að annar miðvarðanna verði færður í hægri bakvörðinn en það myndi að þeirra mati veikja varnarleikinn mikið.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).






Tengdar fréttir

Ungverjar: Ísland á skilið okkar virðingu

Ungverjar voru með blaðamannafund í Marseille rétt áðan og þangað mætti þjálfari liðsins og tveir leikmenn. Þar var talað fallega um íslenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×