Íslenska landsliðið ferðast í dag frá Annecy í Frakklandi til Marseille þar sem það á næsta leik á Evrópumótinu í fótbolta gegn Ungverjalandi á morgun.
Strákarnir fljúga frá Chambéry sem er í tæpri klukkustundar fjarlægð frá Annecy þar sem liðið dvelur og æfir á meðan Evrópumótinu stendur. Þeir fara í loftið klukkan 11.00 en flugið tekur um eina klukkustund. Íslensku fjölmiðlamennirnir fljúga með strákunum yfir.
Ísland æfir ekki á Stade Vélodrome í dag eins og stóð til en völlurinn er illa farinn eftir tónleika rokkhljómsveitarinnar AC/DC á dögunum. Þess í stað æfir liðið á öðrum velli sem er í klukkustundar fjarlægð frá keppnisvellinum.
Blaðamannafundur hjá Íslandi fer fram klukkan 17:15 að staðartíma, 15:15 að íslenskum tíma og er stefnt að því að vera með fundinn í beinni útsendingu á Vísi eins og hefur verið gert fyrir síðustu blaðamannafundi.
Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 16.00 á morgun en sigur þar kemur strákunum okkar næstum örugglega í 16 liða úrslitin.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
