Walesverjar leiddu 0-1 í hálfleik, þökk sé marki Gareths Bale beint úr aukaspyrnu. En Roy Hodgson, þjálfari Englands, brást við með því að setja þá Vardy og Sturridge inn á fyrir Harry Kane og Raheem Sterling.
Og Vardy og Sturridge þökkuðu traustið; Vardy jafnaði metin á 56. mínútu og Sturridge skoraði svo sigurmarkið þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma.
„Þetta er frábær tilfinning, ótrúleg. Ég er þakklátur þjálfaranum og Guði fyrir að leyfa mér að skora,“ sagði hinn heittrúaði Sturridge sem skoraði sitt sjötta landsliðsmark í Lens í dag. Vardy var sömuleiðis hinn kátasti.
„Það vilja allir byrja inn á en þetta er liðsíþrótt, við erum allir í þessu saman og þú vilt leggja þitt af mörkum þegar þú kemur inn á,“ sagði Vardy sem skoraði í sínum fyrsta leik á stórmóti í dag.
„Mér fannst við spila vel. Skilaboðin voru einföld - að halda áfram að gera það vorum að gera í fyrri hálfleik og vonast til að mörkin kæmu.“
