Innlent

Tvöfalt meiri sala hjá ÁTVR í gær en á venjulegum þriðjudegi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í gær seldust 84 þúsund lítrar af áfengi í Vínbúðunum en seinasta þriðjudag voru þeir 40 þúsund.
Í gær seldust 84 þúsund lítrar af áfengi í Vínbúðunum en seinasta þriðjudag voru þeir 40 þúsund. Vísir/GVA
„Ef þú miðar við þriðjudaginn 7. júní þá var tvisvar sinnum meiri sala í gær í Vínbúðunum. Þá seldust 40 þúsund lítrar en í gær seldust 84 þúsund lítrar þannig að þetta er tvöföldun miðað við hefðbundinn þriðjudag,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR aðspurð um hvort ekki hafi verið meira að gera í Vínbúðunum í gær heldur en á venjulegum þriðjudegi út af landsleik Íslands og Portúgals á Evrópumóti karla í knattspyrnu.

Frá Vínbúðinni í Austurstræti í gær rétt fyrir klukkan 18.vísir
Þannig var til að mynda troðfullt í Vínbúðinni í Austurstræti þegar blaðamaður Vísis var þar á ferðinni rétt fyrir klukkan 18 í gær en Sigrún segir að mögulegt sé að þar hafi verið meiri traffík en í öðrum verslunum þar sem hún sé niðri í bæ, það hafi verið gott veður og jú vissulega landsleikurinn á risaskjá á Ingólfstorgi.

Dagurinn í gær var þó langt því frá eins og venjulegur laugardagur því sölutölur ÁTVR frá seinasta laugardegi 11. júní þegar 145 þúsund lítrar af áfengi seldust.

Næsta laugardag, 18. júní, mætir landsliðið Ungverjalandi en ÁTVR gerir svo sem engar sérstakar ráðstafanir vegna þess enda er næsta helgi stærri söluhelgi en sú seinasta einfaldlega vegna þess að 17. júní er á föstudegi og því um langa helgi að ræða fyrir marga.

„Við fókuserum bara á það að halda vöruflæðinu og eiga til þær vörur sem viðskiptavinirnir vilja. En við gerum í rauninni bara ráð fyrir að þetta sé annasöm vika, ekkert endilega út af landsleikjunum, en jú ég held að það sé engin spurning að leikurinn í gær hafi haft einhver áhrif á söluna,“ segir Sigrún.


Tengdar fréttir

Umferð hrundi meðan á leik stóð

Umferðarteljarar Vegagerðarinnar sýna að fáir voru á ferli í borginni í gærkveldi meðan Portúgalir og Íslendingar áttust við i St. Etienne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×