Fótbolti

Hannes Þór átti von á góðum degi: „Á eftir að horfa á vörsluna nokkrum sinnum í rútunni“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hannes Þór grípur vel inn í einu sinni sem oftar í kvöld.
Hannes Þór grípur vel inn í einu sinni sem oftar í kvöld. Vísir/Vilhelm
Hannes Þór Halldórsson var að margra mati, þar á meðal íþróttafréttamanna Vísis, maður leiksins í Saint-Étienne í kvöld. Leikstjórinn varði og varði þar á meðal einu sinni á undraverðan hátt frá Nani af stuttu færi í fyrri hálfleiknum.

„Við áttum náttúrulega bara að vinna þetta,“ sagði Hannes Þór og hló, vitanlega ánægður með kvöld.

„Okkur líður auðvitað mjög vel. Þetta var auðvitað eitt besta lið í heimi og fyrsti leikurinn okkar á stórmóti. Við bara áttum þetta skilið. Við ununm fyrir þessu, vörðumst frábærlega sem liðsheild,“ sagði Hannes Þór.

„Svo náttúrulega þessi tilfinning að spila fyrsta leik á stórmóti fyrir ísland, vera með 7-8 þúsund manns á bak við okkur, stórfjölskylduna og alla vinina,“ sagði Hannes greinilega í skýjunum.

Hannes var spurður út í vörsluna í fyrri hálfleiknum frá Nani. Þá varði hann skalla Portúgalans af stuttu færi með fótunum. Nani skilur enn ekki hvernig hann skoraði ekki.

„Hún verður tekin nokkrum sinnum í rútunni á leiðinni heim,“ sagði Hannes Þór hlæjandi. Auðvitað var varslan engin heppni, þetta voru viðbrögð.

„Að sjálfsögðu, ég þurfti að hreyfa fótinn til að verða fyrir honum. Við æfum þetta mikið daginn fyrir leik, krossa, skot og skalla af stuttu færi,“ sagði Hannes.

„Mér leið vel í gær og grunaði að þetta gæti orðið góður dagur.“

Veganestið er gott í keppninni.

„Þetta var sterkur puktur, frábær fyrir sjálfstraustið, þetta verður jafn riðill, óvænt úrslit í dag. Lykilleikurinn verður á móti Ungverjum. Við verðum að vinna næsta leik. Ef við gerum það gætum við verið í góðri stöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×