Fótbolti

Raggi Sig: Hugsa um rassgatið á sjálfum mér þegar keppnin er búin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Sigurðsson er að spila frábærlega á EM.
Ragnar Sigurðsson er að spila frábærlega á EM. vísir/vilhelm
Ragnar Sigurðsson hefur að öðrum ólöstuðum verið besti leikmaður íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í fótbolta en hann átti frábæran leik gegn Ungverjum á þriðjudaginn og var einnig magnaður gegn Portúgal í fyrsta leik.

Þessi þrítugi Árbæingur er búinn að spila í Rússlandi undanfarin ár þaðan sem hann kom frá Svíþjóð. Hann hefur sagt opinberlega að hann vil komast lengra á sínum ferli og helst til Englands en telur hann að frammistaðan á EM opni fyrir hann einhverjar dyr?

„Ég bara veit það ekki. Eina sem ég get gert er að spila eins vel og ég get. Maður fær hjálp frá liðsfélögum sínum. Mér finnst við hafa spilað varnarleikinn sem heild þannig ég held það sé betra að einbeita sér að því fyrst og hugsa svo um rassgatið á sjálfum sér þegar keppnin er búin,“ sagði Ragnar á blaðamannafundi í Annecy í dag.

Sjá einnig:Sjáðu blaðamannafund strákanna í heild sinni

„Það er besta leiðin en auðvitað þegar maður er að standa sig ætti það að geta opnað einhverjar dyr. Það er samt undir einhverjum öðrum komið að opna dyrnar.“

Ragnar og Kári Árnason hafa náð frábærlega saman í miðvarðarstöðunni undanfarin ár hjá íslenska liðinu en honum leist vel á að fara eitthvað með Kára sem hluti af pakkadíl.

„Það væri helvíti gott. Ef ég gæti spilað með Kára hvern einasta leik væri ég mjög glaður maður,“ sagði Ragnar sem var svo spurður af sænskum blaðamanni hvenær hann ætlaði aftur til Gautaborgar þar sem hann er elskaður og dáður.

„Ég veit það ekki, það er ómögulegt að segja. Ég er enn að reyna að komast ofar á mínum ferli. Þegar ég fer niður aftur og íhuga að fara til Skandinavíu skal ég láta þig vita,“ sagði Ragnar Sigurðsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Eiður Smári: Vil ekki að þetta hætti

"Þetta er eins og að fara í Disneyland í fyrsta skipti,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen um upplifun sína af EM í Frakklandi til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×