Körfubolti

Nóg að gera hjá Kevin Durant næstu daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar á næsta tímabili? Steph Curry og Kevin Durant.
Liðsfélagar á næsta tímabili? Steph Curry og Kevin Durant. Vísir/Getty
Körfuboltamaðurinn Kevin Durant er einn allra feitasti bitinn á NBA-markaðnum í sumar og framundan eru fundahöld hjá honum og mörgum af flottustu liðum deildarinnar.

Kevin Durant er að klára samning hjá Oklahoma City Thunder og mun funda með „sínu" félagi áður en hann flýgur til New York til að heyra tilboð frá öðrum félögum. ESPN segir frá.

Kevin Durant er 27 ára gamall og hefur spilað í NBA-deildinni frá árinu 2007. Hann hefur allt tíð spilað með Oklahoma City Thunder en liðið hét þó Seattle SuperSonics þegar það tók hann með öðrum valrétti í nýliðavalinu 2007.

Kevin Durant er með 27,4 stig, 7,0 fráköst og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á níu tímabilum sínum í NBA-deildinni en hann hefur einu sinni verið kosinn best leikmaður deildarinnar (2014) og fjórum sinnum verið stigakóngur (2010, 2011, 2012 og 2014).

Kevin Durant snéri öflugur til leiks á síðasta tímabili eftir meiðslahrjáð tímabil þar á undan. Hann var aftur upp á sitt allra besta með 28,2, 8,2 fráköst og 5,0 stoðsendingar að meðaltali í leik og Oklahoma City Thunder liðið var aðeins einum leik frá því að komast í lokaúrslit NBA-deildarinnar.

Kevin Durant mun hitta fulltrúa Golden State Warriors og Los Angeles Clippers á morgun, hann fundar með fulltrúum San Antonio Spurs og Boston Celtics á laugardaginn og síðasti planaði fundurinn er síðan með Miami Heat á sunnudaginn.  Fari Durant til Golden State Warriors eða San Antonio Spurs er ljóst að þar væru um leið fæddir meistara kandídatar.

Oklahoma City Thunder getur boðið Kevin Durant langbesta samninginn af þessum liðum en hann hefur enn ekki náð að vinna NBA-titilinn og eftir níu ár er hætt við því að hann vilji spila með liði sem getur unnið á næstu árum.

Það eru ekki bara fyrrnefnd félög sem dreymir um samning við Durant. Hann er góður vinur Carmelo Anthony og New York Knicks er að reyna að fá fund. Annað félag sem vonast eftir því að gera Durant tilboð er Los Angeles Lakers. Heimildir herma þó að Kevin Durant ætli ekki að ræða við Lakers.

Kevin Durant.gengur af velli í lok tímabilsins.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×