Geðshræring greip um sig síðdegis í gær meðal íslenskra stuðningsmanna sem höfðu ekki fengið miðana sína í hendur og nær dró leik. Hluti þeirra fengu miðana sína, einhverjir misstu af upphafsmínútunum, aðrir sátu í öðrum sætum en þeim hafði verið úthlutað og loks var hópur fólks sem einfaldlega fékk enga miða. Þeirra á meðal fjölskyldufólk með börn sem héldu aftur á hótelið, sár og reið.

Tjörvi segir ekki liggja fyrir hve margir sátu uppi miðalausir
„Ég er ekki með nákvæma tölu á því en við höfum heyrt töluna sjötíu miða nefnda, en það getur vel verið að talan sé hærri. Við bara vitum það ekki. Málið er í skoðun hjá frönsku lögreglunni sem stendur.“

„Það var enginn handtekinn í gær miðað við það síðasta sem við heyrðum,“ segir Tjörvi. Íslenska lögreglan muni aðstoða kollega sína í París við rannsókn málsins.
Björn segir í viðtali við RÚV í morgun að hann hafi verið svikinn af miðasölustjóra hjá Knattspyrnusambandi Evrópu. Hann hafnar því að miðarnir sem hann seldi hafi verið falsaðir eða fengnir eftir ólöglegum leiðum.
„Við erum að fela okkar lögmanni að vinna að því að hefja endurgreiðsluferli sem fengu ekki miða. Við erum að vinna í því að senda Knattspyrnusambandi Íslands greinargerð um þetta mál. Við höfum verið svikinn af miðasölustjóra UEFA og við munum leggja fram tölvupósta um það í dag. Þar liggur þessi hundur grafinn. Þetta er ömurlegt mál og dagurinn í dag fer í að losa um það sem gerðist.“