Körfubolti

Íslandsvinurinn Jeremy Lin aftur til New York

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeremy Lin sem leikmaður New York Knicks.
Jeremy Lin sem leikmaður New York Knicks. Vísir/Getty
Leikstjórnandinn Jeremy Lin hefur fundið sér nýtt lið í NBA-deildinni í körfubolta en hann hefur gert þriggja ára samning við Brooklyn Nets.

Jeremy Lin, sem verður 28 ára gamall í ágúst, gerði tveggja ára samning við Charlotte fyrir ári síðan en gat sagt honum upp eftir tímabilið sem hann og gerði. Hann átti „aðeins" að fá 2,2 milljónir dollara í laun fyrir komandi tímabil en sú tala hækkar nú mikið.

Jeremy Lin fær alls 36 milljónir dollara fyrir þessi þrjú tímabil eða 4,4 milljarða íslenskra króna. Hann ræddi einnig við forráðamenn New Orleans Pelicans en ákvað að snúa aftur á New York svæðið.

Jeremy Lin er í hópi svokallaðra Íslandsvina eftir að hann heimsótti landið fyrr í sumar þar sem það vakti miklu athygli þegar hann spilaði einn á einn við unglingalandsliðsmanninn Júlíus Orra Ágústsson en Júlíus bauð honum í leik heima hjá sér á Akureyri sem þessi frægi körfuboltamaður þáði.

Sjá einnig:Ísferð í Brynju endaði með körfuboltaleik við Jeremy Lin: "Ég ætlaði bara að fá mér ís“

Jeremy Lin sló í gegn á sínum tíma sem leikmaður New York Knicks tímabilið 2011-12 og þá hófst svokallað Linsanity í New York þegar þessi þá lítt þekkti leikmaður skorað 20 stig eða meira í níu leikjum á tíu leikja kafla.

Jeremy Lin endaði tímabilið með 14,6 stig og 6,2 stoðsendingar að meðaltali í 35 leikjum með New York Knicks og vann sér inn feitan samning hjá Houston Rockets sumarið eftir.

Jeremy Lin hefur síðan spilað með Houston Rockets, Los Angeles Lakers og Charlotte Hornets. Hann var með 11,7 stig og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×