Erlent

Fartölvur vígamanna sagðar fullar af klámi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Fyrrum yfirmaður leyniþjónustunnar Defence Intelligence Agency eða DIA segir að fartölvur vígamanna ISIS sem hermenn hafi náð séu yfirleitt fullar af klámi. Samkvæmt nýrri bók Michael T. Flynn, sem gefin er út í köflum af Bild, eru um 80 prósent þeirra skráa sem fundist hafa í tölvum vígamanna klám.

Í bók sinni á Flynn þó að mestu við vígamenn al-Qaeda í Írak, sem seinna varð Íslamska ríkið. Núverandi starfsmaður DIA segir ABC News að hann geti ekki staðfest hlutfallið en hann segir mikið um klám á tölvum vígamanna.

Þeir hafi oft fundið barna- og dýraklám. Samkvæmt reglum ISIS er varsla kláms refsiverð. Refsingin er svipuhögg. 

Þegar sérsveitarmenn felldu Osama bin-Laden á heimili hans í Pakistan fannst verulegt magn af klámi í kassa undir rúmi hans. Í fyrstu var talið að leynileg skilaboð væri að finna í kláminu en svo reyndist ekki vera.

Michael Flynn er talinn líklegur til að vera valinn sem varaforsetaefni Donald Trump. Hershöfðinginn hefur haldið því fram að hann hafi verið rekinn af Barack Obama fyrir að nota orðin „radical islam“ og stöðu sína varðandi stríðið gegn hryðjuverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×