Körfubolti

Martin búinn að semja við lið í Frakklandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin í leik með íslenska landsliðinu á EuroBasket.
Martin í leik með íslenska landsliðinu á EuroBasket. vísir/valli
Körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson er genginn í raðir franska 2. deildarliðsins Étoile de Charleville-Mézières.

Martin hefur undanfarin tvö ár leikið með LIU Brooklyn háskólanum í Bandaríkjunum. Martin átti góðu gengi að fagna á síðasta tímabili þar sem hann skoraði 16,2 stig, tók 4,6 fráköst og gaf 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Martin, sem verður 22 ára síðar á árinu, er uppalinn hjá KR en hann var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar þegar KR varð Íslandsmeistari 2014.

Martin hefur leikið 35 A-landsleiki fyrir Íslands hönd en hann var í íslenska hópnum sem fór á EuroBasket síðasta haust.

Charleville-Mézières endaði í 15. sæti frönsku 2. deildarinnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×