Sport

Katrín Tanja komst á toppinn og Sara er áfram í öðru sætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Vísir/GVA
Katrín Tanja Davíðssdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir háðu mikið einvígi um sigurinn í kvennakeppni heimsleikanna í crossfit í fyrra og það stefnir í annað einvígi íslensku stelpnanna í ár.

Katrín Tanja náði öðrum bestum árangri í níundu grein keppninnar og það kom henni upp í toppsætið fyrir síðustu grein dagsins. Það verður tíunda greinin en aðrar fjórar fara síðan fram á morgun og því er mikið af stigum eftir í pottinum.

Níunda greinin hét "The Separator" og þar þurftu þær meðal annars að gera öfugar handlyftur í hringjum sem reyndist mörgum mjög erfitt. Katrín Tanja nýtti sér hinsvegar vel reynslu sína úr fimleikum og sá grunnur kom sér vel fyrir hana.

Katrín Tanja er komin með 642 stig eftir að hafa fengið 94 stig fyrir níundu greinina. Katrín Tanja er tólf stigum á undan löndu sinni Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur.

Ragnheiður Sara varð í fimmta sæti í níundu greininnni og hefur aldrei endaði neðar en 17 sæti í þeim níu greinum sem eru búnar.

Samantha Briggs sem var á toppnum fyrir greinina datt niður í fjórða sætið en er þó bara 24 stigum á eftir Katrínu. Tia-Clair Toomey er í þriðja sætinu, aðeins tveimur stigum á eftir Ragnheiði Söru og fjórtán stigum á eftir Katrínu Tönju.

Annie Mist Þórisdóttir náði ekki tímamörkunum en endaði í 18. sæti í níundu greininni. Hún er í tíunda sætinu í heildarkeppninni og er ekki líkleg til að berjast um verðlaunin í ár.

Þuríður Erla Helgadóttir náði ekki alveg að fylgja eftir fyrstu keppni dagsins þar sem hún varð þriðja. Þuríður Erla náði 23. besta árangrinum í grein níu og er í 16. sæti í heildarkeppninni.

Það eru enn fimm greinar eftir af keppninni þar af verður ein þeirra seinna í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×