Körfubolti

Fjórða sætið niðurstaðan hjá stelpunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar unnu fjóra af sjö leikjum sínum á EM.
Íslensku stelpurnar unnu fjóra af sjö leikjum sínum á EM. mynd/kkí
Ísland tapaði fyrir Bosníu, 82-67, í leiknum um 3. sætið í B-deild Evrópumótsins í kvöld.

Íslenska liðið kemst því ekki upp í A-deild en sigur í dag hefði tryggt liðinu sæti þar.

Slæmur endir á fyrri hálfleik varð íslenska liðinu að falli í leiknum í kvöld. Ísland leiddi með sex stigum, 16-22, eftir 1. leikhluta og þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik voru íslensku stelpurnar fjórum stigum yfir, 26-30.

En þá sagði bosníska liðið hingað og ekki lengra. Bosnía vann síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks 22-6 og fór með 12 stiga forystu, 48-36, til búningsherbergja.

Bosníska liðið hélt því íslenska í hæfilegri fjarlægð í seinni hálfleik og vann að lokum 15 stiga sigur, 82-67.

Thelma Dís Ágústsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 16 stig en Sylvía Rún Hálfdanardóttir kom næst með 12 stig. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir skoraði 10 stig og Emelía Ósk Gunnarsdóttir níu stig. Þá tók Þóranna Kika Hodge-Carr 11 fráköst.

Íslenska liðið lauk í 4. sæti en liðið var hársbreidd frá því að komast í úrslitaleikinn og tryggja sér þar með sæti í A-deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×