Fótbolti

Carvajal hetja Real í Ofurbikarnum | Sjáðu mörkin og bikarafhendinguna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Daniel Carvajal reyndist hetja Real Madrid í framlengdum leik gegn Sevilla í Ofurbikarnum, en lokatölur urðu 3-2 sigur Real. Þetta er í þriðja skiptið sem Real vinnur bikarinn.

Leikið var á Lerkendal leikvanginum í Þrándheimi, en það er heimavöllur Rosenborgar þar sem Íslendingarnir þrír; Hólmar Örn Eyjólfsson, Guðmundur Þórarinsson og Matthías Vilhjálmsson leika.

Þetta byrjaði ágætlega fyrir Real Madrid því Marco Asensio kom þeim yfir á 21. mínútu með gullfallegu marki, en hann þrumaði boltanum í netið í sínum fyrsta aðalliðsleik.

Franco Vazquez sá hins vegar til þess að Real myndi ekki leiða þegar gengið væri til búningsherbergja því hann jafnaði metin á 41. mínútu með góðu skoti.

Sjáðu einnig:Asensio byrjar ferilinn hjá Real á rosalegu marki | Sjáðu markið

Staðan 1-1 í hálfleik og næsta mark lét bíða eftir sér, en það kom á 72. mínútu. Sevilla fékk vítaspyrnu eftir að Sergio Ramos gerðist brotlegur inann vítateigs. Yevheniy Konoplyanka steig á punktinn og skoraði.

Ramos var staðráðinn í að bæta fyrir mistökin og hann gerði það, en í uppbótartíma skallaði hann fyrirgjöf Lucas Vasquez í netið og tryggði Madrídingum framlengingu.

Hetjan  kom svo úr óvæntri átt, en Daniel Carvajal skoraði sigurmarkið á 119. mínútu þegar hann óð upp allan völlinn, sólaði varnarmann Sevilla og lagði hann í fjærhornið. Lokatölur 3-2.

Madrídingar voru án góðra leikmanna á borð við Cristiano Ronaldo sem er meiddur og Gareth Bale sem fékk hvíld eftir Evrópumótið í Frakklandi.

Deildin á Spáni hefst 19. ágúst, en Sevilla mætir Espanyol þann 20. ágúst og degi síðar fer Real í heimsókn til Real Sociedad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×