Körfubolti

Þriðja tapið í röð í Austurríki

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta fékk skell í lokaleik liðsins í dag gegn Slóveníu í fjögurra liða æfingarmóti sem haldið var í Austurríki en leiknum lauk með 30 stiga sigri Slóvena.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og leiddi 24-23 eftir fyrsta leikhluta en Slóvenar náðu betri stjórn á leiknum eftir því sem leið á leikinn og leiddu 55-37 í hálfleik.

Slóvenar sem léku án NBA-stjörnunnar Goran Dragic stýrðu leiknum allan tímann í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan þrjátíu stiga sigur. Fór svo að íslenska liðið tapaði öllum þremur leikjunum en tapið í dag var það stærsta.

Martin Hermannsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 16 stig en Hörður Axel Vilhjálmsson bætti við öðrum tíu stigum.

Var æfingarmótið hluti af undirbúning liðsins fyrir undankeppni Eurobasket 2017 en Ísland mætir Sviss 31. ágúst næstkomandi í Laugardalshöllinni en ásamt Sviss eru Kýpur og Belgía með Íslandi í riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×