Frumvörpin sem stjórnarskrárnefnd lagði fram eru þrjú. Þau fjalla um þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd og þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu kjósenda og liggja þessar tillögur nú fyrir Alþingi í formi frumvarps til laga um breytingu á stjórnarskránni.
Sjá einnig: Leggja til að 15 prósent geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu
Lagt er meðal annars til að fimmtán prósent kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi en undanskilin ákvæðinu eru fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.

Samkvæmt frumvarpinu mun ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvíli sameiginlega á öllum og að verndin skuli grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Sjá einnig: Kemur ekki til greina að afgreiða frumvörp um stjórnarskrá
Nefndarmenn í stjórnarskrárnefnd voru ekki á einu máli um það að hve miklu leyti athugasemdir sem fram komu við samráð kölluðu á breytingar á frumvarpsdrögunum og einungis voru gerðar þær breytingar sem allir nefndarmenn gátu fallist á. Hefur forsætisráðherra nú lagt fram þessar tillögur á þingi en fyrr í sumar sagði hann slíkt stæði til.
Þegar tillögurnar voru lagðar fram voru nefndarmenn stjórnarskrárnefndar í vafa um hvort frumvörp nefndarinnar sem afhent voru kæmu nokkurn tíma til umræðu á Alþingi. Þá sagði Birgitta Jónsdóttir Pírati að ekki kæmi til greina að afgreiða þessar breytingar fyrir kosningar sem haldnar verða í haust.