Innlent

Flugvél WOW fékk fugl í hreyfil í flugtaki: „Urðum dauðskelkuð“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Snúa þurfti við flugvél WOW Air á leið frá Barcelona til Íslands í gær eftir að fugl lenti í hreyfli í vélarinnar.
Snúa þurfti við flugvél WOW Air á leið frá Barcelona til Íslands í gær eftir að fugl lenti í hreyfli í vélarinnar. Vísir/Vilhelm
Snúa þurfti við flugi WOW Air frá Barcelona til Íslands í gærkvöldi eftir að stór fugl lenti í hreyfli vélarinnar skömmu eftir flugtak. Farþegi um borð í vélinni segist hafa orðið dauðskelkaður en blossar og eldglæringar komu upp í hreyflinum við samstuðið við fuglinn.

„Við fórum þarna í loftið í gærkvöldi. Þegar vélin er í risinu eftir flugtak heyrum við einhver óhljóð og svo sé bara blossana frá hreyflinum út um gluggann,“ segir Arnar Birgisson fasteignasali frá Akureyri sem var um borð í vélinni á leiðinni heim með fjölskyldu sína eftir frí á Spáni.

„Þetta var ótrúleg upplifun og við urðum dauðskelkuð. Það er alveg skelfilegt að sjá svona eldglæringar,“ segir Arnar en fljótlega fengu farþegar þær upplýsingar að líklega hefði fugl lent í hreyflinum og að allir mælar flugvélarinnar sýndu að allt væri í lagi.

Vélinni var snúið við og lent aftur í Barcelona eftir að hafa hringsólað í drjúga stund svo losa mætti um eldsneytisbirgðar vélarinnar. Var Arnari, fjölskyldu hans og öðrum farþegum svo komið fyrir á hóteli á meðan beðið er eftir brottför aftur heim til Íslands.

Í samtali við Vísi staðfesti Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air, að stór fugl hefði lent í hreyfli vélarinnar og til öryggis hafi verið ákveðið að snúa vélinni við.

Eftir lendingu hafi komið í ljós að hreyfillinn var töluvert skemmdur og því voru farþegar vélarinnar sendir á hótel. Mun Wow Air senda flugvél frá Íslandi eftir farþegunum á meðan gert er við hina og er áætluð brottför í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×