Fótbolti

Wenger: Gott stig fyrir okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wenger hafði sína menn hafa spilað betur í seinni hálfleik en þeim fyrri.
Wenger hafði sína menn hafa spilað betur í seinni hálfleik en þeim fyrri. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var að vonum ánægður með stigið sem hans menn fengu gegn Paris Saint-Germain á Parc des Princes í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Arsenal lenti undir eftir aðeins 42 sekúndur en kom til baka og Alexis Sánchez tryggði liðinu stig þegar hann jafnaði metin 13 mínútum fyrir leikslok.

„Við vildum byrja leikinn á háu tempói en við lentum undir eftir mínútu. Þeir keyrðu yfir okkur á 20 mínútna kafla, byrjuðu miklu betur en við stóðum þetta af okkur,“ sagði Wenger eftir leik.

Hann kvaðst sáttur með hvernig hans menn spiluðu seinni hálfleikinn.

„Við spiluðum miklu betur í seinni hálfleik en þeir duttu reyndar aðeins niður líka. Við fórum með liðið mjög hátt á völlinn og vorum berskjaldaðir fyrir skyndisóknum. En þetta er gott stig fyrir okkur,“ sagði Wenger sem stillti Sánchez upp sem fremsta manni í kvöld.

„Þú verður að berjast þegar þú ert á útivelli og Sánchez gerði vel. Hann var einmana á köflum en þetta var auðveldara fyrir hann í seinni hálfleik.“

Marco Verratti og Oliver Giroud voru báðir reknir af velli í uppbótartíma en það var óljóst hvað þeir gerðu til að verðskulda rauða spjöldin.

„Ég skildi ekki rauðu spjöldin. Giroud segist ekki hafa gert neitt. Við þurfum að skoða þetta aftur. Ég trúi Giroud,“ sagði Wenger.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×