Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar í Pepsi-deild karla, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.
Rúnari var vísað af velli fyrir mótmæli í leik Stjörnunnar og Vals á sunnudaginn. Þetta er annað sinn á tímabilinu sem Rúnar fær brottvísun en hann var einnig rekinn upp í stúku þegar Stjarnan og ÍBV mættust 23. júní. Stjarnan var sömuleiðis sektuð um 15.000 krónur vegna brottvísunar Rúnars.
Þrír leikmenn í Pepsi-deild karla voru úrskurðaðir í eins leiks bann.
Haukur Páll Sigurðsson tekur út leikbann þegar Valur tekur á móti Breiðabliki á fimmtudaginn, Aleix Egea Acame missir af leik Víkings Ó. gegn Víkingi R. og Hallur Hallsson verður ekki með Þrótti í leiknum gegn Fjölni.
Þá fékk Ólsarinn Emir Dokara tveggja leikja bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Fylki á sunnudaginn. Þetta var önnur brottvísun hans á tímabilinu.
Fjórir leikmenn í Pepsi-deild kvenna voru einnig úrskurðaðir í eins leiks bann: Arna Dís Arnþórsdóttir (Breiðabliki), Maria Selma Haseta (FH), Elma Lára Auðunsdóttir (Fylki) og Magdalena Anna Reimus (Selfossi).
