Fylkir, Selfoss og KR freista þess öll að forðast að fylgja ÍA niður í 1. deild í dag er lokaumferð Pepsi-deildar kvenna fer fram.
Fjögur neðstu liðin mætast innbyrðis í dag. KR sækir ÍA heim og í Árbænum mætast Fylkir og Selfoss.
Þrátt fyrir dapurt gengi í sumar og fjögur töp í röð eru Fylkiskonur enn með örlögin í sínum höndum. Vinni þær Selfyssinga eru þær hólpnar.
„Það er miklu betra að þetta sé í okkar höndum. Við þurfum bara að treysta á okkur sjálfar. Við förum bara með eitt markmið í þennan leik og það er að vinna,“ sagði Ruth Þórðar Þórðardóttir, fyrirliði Fylkis, í samtali við Vísi í gær.
Hún segir að slæmt gengi í sumar hafi eðlilega áhrif á sálarástand leikmanna liðsins.
Skakkaföll í sumar
„Það gerir það auðvitað. Við erum líka búnar að lenda í miklum áföllum, misst marga leikmenn og gengið í gegnum ýmislegt í sumar. En hópurinn sem er núna er þéttur og góður,“ sagði Ruth.
Í síðustu viku skipti Fylkir um þjálfara. Eiður Benedikt Eiríksson var látinn fara og við tók Kristbjörg Ingadóttir. Þjálfaraskiptin báru ekki árangur strax en í fyrsta leik eftir þau tapaði Fylkir 6-0 fyrir Þór/KA.
„Það er kannski ekki mikið sem breytist á svona skömmum tíma, þetta eru bara 10 dagar eða svo. En ég held að þetta hafi verið gert með hagsmuni liðsins á þessum tímapunkti í huga. Það verður bara í koma í ljós hvort þetta var rétt ákvörðun eða ekki,“ sagði Ruth.
Fylkir hefur lent nokkrum vandræðum með leikmenn í sumar, sumir meiðst og aðrir farið, og fyrir vikið hafa ungir leikmenn fengið tækifæri. Það gæti reynst dýrmætt upp á framtíðina að gera segir Ruth.
„Í byrjun tímabils vorum við með mjög góðan hóp en við höfum lent í miklum áföllum; mikið af meiðslum og útlendingarnir stóðu ekki undir væntingum og fóru svo. Ungar stelpur, úr 2. og 3. flokki, hafa fengið tækifæri og eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Það er vonandi jákvætt fyrir framtíðina,“ sagði Ruth.
Reynir á reynsluna
Þrátt fyrir að það hafi kvarnast úr leikmannahópi Fylkis í sumar er töluverð reynsla til staðar í hópnum.
„Við erum nokkrar sem eru búnar að spila mjög lengi saman og lengi fyrir Fylki. Nú þurfum við, og ungu stelpurnar, að stíga upp,“ sagði Ruth að endingu.
Ruth: Ekki mikið sem breytist á svona skömmum tíma
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið






Uppgjörið: Stjarnan - ÍBV 2-3 | Gott gengi Eyjamanna heldur áfram
Íslenski boltinn

Vilja Gylfa Þór ekki til baka: „Enginn skilaréttur“
Íslenski boltinn



Vilja úrslitaleik snemma vegna Eurovision
Enski boltinn