Næstsíðasta umferð Pepsi-deildar karla fór öll fram í gær en þá varð það endanlega staðfest að Þróttur muni spila í Inkasso-deildinni á næstu leiktíð.
Þróttarar gerðu 2-2 jafntefli við Fylki sem mistókst þar með að koma sér upp fyrir Víking Ólafsvík og úr fallsæti. Ólafsvíkingar töpuðu sínum leik, gegn KR, sem leikur einmitt gegn Fylki í lokaumferðinni á laugardag.
KR er í harðri fallbaráttu við Stjörnuna, Breiðablik og Fjölni en aðeins tvö stig skilja að liðin fyrir lokaumferðina og aðeins tvö Evrópusæti eru í boði. Lokaumferðin fer öll fram klukkan 14.00 á laugardag og verða fjórir leikir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hliðarrásum.
Helgin var einnig fjörleg í enska boltanum. Arsenal vann sannfærandi sigur á Chelsea í stórslag helgarinnar og Manchester City, Manchester United og Liverpool unnu öll fremur þægilega sigra á sínum andstæðingum.
Everton tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu er liðið tapaði fyrir Bournemouth á útivelli og féll liðið úr öðru sæti deildarinnar í það fimmta.
City er nú þegar komið með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar, er með fullt hús stiga eftir sex umferðir, en tvö stig skilja að liðin í öðru til sjötta sæti.
Umferðinni lýkur í kvöld þegar Jóhann Berg Guðmundsson og félagar taka á móti Watford á heimavelli sínum. Sá leikur hefst klukkan 19.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.