Fótbolti

Börsungur meiddist í afturendanum í svefni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Douglas í einum af sárafáum leikjum sínum fyrir Barcelona.
Douglas í einum af sárafáum leikjum sínum fyrir Barcelona. vísir/getty
Brasilíski varnarmaðurinn Douglas, sem er á láni hjá Sporting Gíjon frá Barcelona, meiddist í svefni á miðvikudaginn eftir tap Sporting gegn Celta Vigo.

Douglas ferðaðist með Sporting til Vigo en var ekki í leikmannahópnum. Þessi 26 ára gamli Brassi samdi við Barcelona fyrir tveimur árum en spilaði aðeins tvo deildarleiki fyrir Katalóníuliðið og var nú sendur á lán.

Bakvörðurinn fékk sér kríu í rútunni á heimleiðinni en svaf í svo óþægilegri líkamsstöðu að hann meiddist í rassvöðva. Þetta staðfesti Gerardo Ruiz, þjálfari Sporting Gíjon, á blaðamannafundi í dag.

Meiðslin eru ekki alvarleg. Douglas gat ekki æft í gær en hann verður með á æfingu í dag og er búist við að hann verði í leikmannahópnum gegn Barcelona í spænsku 1. deildinni á morgun.

Douglas komst til metorða hjá Sao Paulo í Brasilíu þar sem hann spilaði 125 leiki á þremur tímabilum og vann meðal annars Suður-Ameríkukeppni félagsliða. Ferill hans hjá Barcelona hefur aldrei komist af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×