Gordon Hayward framherji Utah Jazz í NBA-deildinni í körfubolta missir af byrjun tímabilsins eftir að hann fingurbrotnaði á æfingu.
Hayward braut baugfingur vinstri handar á æfingu á föstudaginn en Jazz sendi frá sér fréttatilkynningu þess efnis í dag.
Fingurinn brotnaði þegar hann flækti hann í treyju samherja á æfingu. Jazz vill ekki gefa upp hvenær hann verður væntanlegur út á völlinn á ný en hann missir af byrjun tímabilsins sem hefst í síðustu viku mánaðarins.
„Hayward verður skoðaður frekar af læknateymi Jazz og verða frekari fréttir sagðar þegar það á við,“ sagði í fréttatilkynningu félagsins.
„Auðvitað eru þetta vonbrigði, mikið áfall fyrir Gordon,“ sagði Mark Bartelstein umboðsmaður Hayward við The Tribune. „Gordon eyddi öllu sumrinu í Salt Lake City. Það stefndi í stórt tímabili hjá honum. Hann hafði bætt sig mikið.“
Hayward er 26 ára og reiknað með að hann verði frá æfingum næstu sex vikurnar. Hann byrjaði 80 leiki fyrir Jazz á síðasta tímbili og skoraði í þeim 19,7 stig að jafnaði. Hann hefur verið stigahæsti leikmaður liðsins síðustu þrjú tímabilin.
