Fótbolti

Barcelona heldur upp á tuttugu ára afmæli Iniesta í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrés Iniesta.
Andrés Iniesta. Vísir/EPA
Börsungar halda upp á það í dag á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum að það eru tuttugu ár síðan að Andrés Iniesta spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið.

Andrés Iniesta er lifandi goðsögn á Nývangi og án vafa í hópi bestu knattspyrnumanna félagsins frá upphafi. Það fer ekki mikið fyrir kappanum utan vallar en inn á vellinum hefur hann verið lykilmaður á miðjunni í einu besta liði heims í áratug.

Andrés Iniesta spilaði sinn fyrsta leik fyrir unglingalið Barcelona 6. október 1996 en hann hafði komið til félagsins tuttugu dögum áður. Andrés Iniesta, sem er frá Fuentealbilla í Albacete, var tólf ára gamall þegar hann kom til Barcelona en hann vann sig fljótt upp metorðalistann á leið sinni í aðalliðið.

Iniesta spilaði sinn fyrsta leik með aðalliðinu tímabilið 2002 til 2003 en varð ekki fastamaður fyrr en 2004-05.

Iniesta er ásamt Lionel Messi eitt allra besta dæmið um það að Masia akademían er að skila frábærum fótboltamönnum inn í aðallið Börsunga.

Andrés Iniesta hefur spilað 600 leiki með Barcelona og hefur unnið 29 titla með félaginu. Iniesta varð Spánarmeistari í áttunda sinn síðasta vor og bikarmeistari í fjórða sinn. Hann hefur einnig unnið meistaradeildina fjórum sinnum með Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×