Francesco Guidolin sem rekinn var frá Swansea á dögunum hefur mikinn áhuga á að starfa áfram á Englandi.
Ítalinn var fyrsti þjálfarinn til þess að taka pokann sinn á þessu tímabili en Bandaríkjamaðurinn Bob Bradley tók við af honum og stýrir liðinu í fyrsta sinn í dag gegn Arsenal þar sem Gylfi Sigurðsson verður væntanlega í eldlínunni.
„Ég hélt ég fengi lengri tíma en í fótboltaheiminum í dag geta þessir hlutir gerst,“ sagði Guidolin í viðtali hjá Sky Italia.
„Ég er tilbúinn í ný ævintýri. Ég væri mikið til í að reyna fyrir mér aftur á Englandi. Það sem gerist þegar þú leikur í ensku úrvalsdeildinni, það er fallegt og heillandi,“ bætti Ítalinn við, greinilega hrifinn af fótboltanum í Englandi.
„Ég neitaði fjórum eða fimm ítölskum liðum vegna þess að ég vildi starfa erlendis til að bæta við reynsluna sem ég fékk í Fraklandi fyrir 10 árum.“
„Þegar enskt lið hringdi í mig þá pakkaði ég niður á þremur sekúndum og flutti.“
Guidolin tók við Swansea í janúar og var því stjóri liðsins í um 9 mánuði. Þar áður hafði hann meðal annars stýrt Udinese, Palermo, Parma á Ítalíu sem og Monaco í frönsku deildinni.
