Körfubolti

Haukur Helgi með fleiri stoðsendingar en skot í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Ernir
Haukur Helgi Pálsson og félagar hans í Rouen unnu sex stiga heimasigur í fyrstu umferðinni í frönsku b-deildinni í körfubolta í kvöld.

Rouen Basketball vann 76-70 sigur á JA Vichy Auvergne eftir að hafa unnið fyrsta leikhlutann 30-14 og verið síðan 9 stigum yfir í hálfleik, 41-32.

Haukur Helgi Pálsson var með 8 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum en hann spilaði í 23 mínútur. Hann var einnig með 1 varið skot og tapaði 2 boltum.

Haukur Helgi var með 16 í framlag og vann þær mínútur sem hann spilaði með tíu stigum. Það voru bara tveir í liði Rouen með hærra framlag en hann.

Haukur skaut ekki mikið í þessum fyrsta leik sínum í frönsku b-deildinni en hann hitti úr 3 af 4 skotum þar af 2 af 3 þriggja stiga skotum sínum.

Það var ekki mikil eigingirni hjá íslenska landsliðsmanninum í kvöld en hann var með fleiri stoðsendingar (5) en skot (4) í leiknum.

Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermannsson byrja því báðir vel en Martin var með 26 stig í flottum sigri Charleville-Mézières í gær.


Tengdar fréttir

Framtíðin er þeirra

Íslenska körfuboltalandsliðið verður á meðal þátt­tökuliða í öðru Evrópumótinu í röð. Ísland vann frábæran sigur á sterku liði Belgíu á laugardaginn þar sem ungstirni liðsins skinu skært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×