Körfubolti

Jakob góður þegar Borås kom til baka í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu á EM 2015.
Jakob Örn Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu á EM 2015. Vísir/Valli
Íslenski bakvörðurinn Jakob Örn Sigurðarson átti flottan leik með Borås Basket í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Borås Basket vann þá tólf stiga heimasigur á Uppsala Basket, 78-66, eftir að hafa verið sex stigum undir í hálfleik, 34-40.

Lið Borås Basket og Uppsala Basket voru bæði með sex stig í 3. til 4. sæti deildarinnar og styrkti Borås stöðu sína í þriðja sætinu með þessum sigri.

Borås Basket var búið að tapa tveimur leikjum í röð og lenti undir í byrjun leiks. Jakob og félgar nýttu hálfleikinn vel og voru miklu betri í seinni hálfleiknum.

Jakob var stigahæstur í liði með 21 stig en Bandaríkjamaðurinn James Washington skoraði líka 21 stig.

Jakob spilaði í tæpar 38 mínútur og hitti úr 8 af 15 skotum sínum. Hann var einnig með 4 stoðsendingar og 6 fiskaðar villur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×