Körfubolti

Martin stoðsendingahæstur í sigri Charleville Mezieres | Sigrar hjá Íslendingaliðunum á Spáni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin gaf níu stoðsendingar í leiknum í kvöld.
Martin gaf níu stoðsendingar í leiknum í kvöld. vísir/ernir
Martin Hermannsson stóð fyrir sínu þegar Charleville Mezieres vann níu stiga útisigur, 70-79, á Evreux í frönsku B-deildinni í körfubolta í kvöld.

Martin skoraði 15 stig og var þriðji stigahæsti leikmaður Charleville Mezieres. Íslenski landsliðsmaðurinn hitti úr fjórum af tíu skotum sínum utan af velli og sex af sjö vítaskotum hans fóru rétta leið.

Martin tók auk þess þrjú fráköst og gaf níu stoðsendingar. Enginn leikmaður á vellinum gaf fleiri stoðsendingar en Martin í leiknum.

Með sigrinum komst Charleville Mezieres upp í 3. sæti deildarinnar en liðið hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu.

Haukur Helgi Pálsson kom ekkert við sögu þegar Rouen tapaði, 69-78, fyrir Denain-Voltaire á heimavelli í sömu deild. Rouen er í 15. sæti með aðeins einn sigur eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

Íslendingaliðin í spænsku B-deildinni hrósuðu bæði sigri í leikjum sínum í kvöld.

Ægir Þór Steinarsson skoraði sex stig og gaf sjö stoðsendingar þegar San Pablo Inmobiliaria Burgos bar sigurorð af Club Mellila Baloncesto, 89-75. Ægir og félagar eru í 5. sæti deildarinnar með 11 stig.

Ragnar Nathanaelsson skoraði einnig sex stig og tók fimm fráköst þegar Caceres Petrimonio De La Human vann Retabet á heimavelli, 73-58. Þetta var annar sigur Caceres í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×