Með ákvörðun kjararáðs hækka grunnlaun þingmanna, svokallað þingfararkaup, úr 762.940 krónum á mánuði í 1.101.194 krónur á mánuði. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því þingmenn geta fengið alls kyns aukagreiðslur og álag vegna starfa sinna, til að mynda ef þeir taka að sér formennsku í fastanefndum eða gegna formennsku í þingflokki sínum.
Þannig fá varaforsetar þingsins, formenn fastanefnda og formenn þingflokka 15 prósent álag á þingfararkaup og formenn stjórnmálaflokka sem gegna ekki ráðherraembætti fá 50 prósent álag á þingfararkaup, en nánar má kynna sér reglur um þingfararkostnað hér.
Þá er nokkur munur á kjörum þingmanna landsbyggðarinnar annars vegar og svo þingmanna höfuðborgarsvæðisins hins vegar en Vísir hefur tekið saman nokkur dæmi um hversu mikið laun þingmanns geta hækkað vegna auka-og álagsgreiðslna.

Þingfararkaup: 1.101.194 krónur
Fastur ferða-og starfskostnaður sem hver þingmaður fær greiddan: 174.815 krónur
Húsnæðis-og dvalarkostnaður landsbyggðarþingmanna: Upphæð að fjárhæð sem nemur að lágmarki 44.680 krónum en að hámarki 187.657 krónum.
Laun þingmanna höfuðborgarsvæðisins, sem gegna ekki neinum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með föstum ferða-og starfskostnaði: 1.276.009 krónur
Lágmarkslaun þingmanna landsbyggðarinnar, sem gegna ekki neinum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með föstum ferða-og starfskostnaði og húsnæðis-og dvalarkostnaði: 1.320.689 krónur
Hámarkslaun þingmanna landsbyggðarinnar, sem gegna ekki neinum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með föstum ferða-og starfskostnaði og húsnæðis-og dvalarkostnaði: 1.463.666 krónur
Laun formanns fastanefndar á þingi (þingmaður landsbyggðarinnar) með 15 prósent álagi á þingfararkaup, föstum ferða-og starfskostnaði og hámarksgreiðslu húsnæðis-og dvalarkostnaðar: 1.628.845 krónur
Laun formanns stjórnmálaflokks (þingmaður höfuðborgarsvæðisins), sem gegnir ekki ráðherraembætti eða öðrum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með 50 prósent álagi á þingfararkaup og föstum ferða-og starfskostnaði: 1.826.606 krónur
Laun formanns stjórnmálaflokks (þingmaður landsbyggðarinnar), sem gegnir ekki ráðherraembætti eða öðrum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með 50 prósent álagi á þingfararkaup, föstum ferða-og starfskostnaði og hámarksgreiðslu húsnæðis-og dvalarkostnaðar: 2.014.263 krónur