Erlent

Hillary Clinton eftir ósigurinn í kosningunum: „Ég vildi bara kúra með góðri bók“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hillary Clinton heldur ræðu á samkomu góðgerðarsamtaka í gær.
Hillary Clinton heldur ræðu á samkomu góðgerðarsamtaka í gær. vísir/getty
Hillary Clinton kom í gær í fyrsta sinn fram opinberlega eftir að hún tapaði fyrir Donald Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í liðinni viku. Hún hélt ræðu þegar hún var heiðruð á samkomu góðgerðarsamtakanna Children‘s Defense Fund.

Clinton var á einlægu nótunum í ræðunni þegar hún sagði frá því hvernig henni hefur liðið síðan hún tapaði.

„Ég vildi bara kúra með góðri bók eða hundunum okkar og aldrei fara aftur út fyrir hússins dyr,“ sagði Clinton sem hlaut fleiri atkvæði en Trump í kosningunum en tapaði þar sem hann hlaut fleiri kjörmenn.

„Það var ekki auðveldasti hlutur í heimi fyrir mig að koma hingað í kvöld. Ég veit að mörg ykkur vonsvikin yfir úrslitum kosninganna og ég er það líka, meira en ég get komið orðum að. Ég veit að þetta er ekki auðvelt og ég veit að síðastliðna viku hafa margir spurt sig hvort að Bandaríkin séu það land sem við töldum að það væri. Gjáin sem þessar kosningar endurspegla er djúp en hlustið á mig þegar ég segi þetta: Bandaríkin eru þessi virði. Börnin okkar eru þess virði. Trúið á landið okkar, berjist fyrir gildunum okkar og aldrei, aldrei gefast upp.“

Clinton hélt ræðu fyrir stuðningsmenn sína í seinustu viku, daginn eftir kosningarnar. Þar sagði hún að það yrði að gefa Trump tækifæri til að leiða þjóðina. Síðan þá hefur hún látið lítið fyrir sér fara þangað til á samkomunni í gær.

Ræðu Clinton má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×